Leikhópurinn Lotta – löðrandi í húmor

litla-gula-hænan

Leikhópurinn Lotta er fyrir margt löngu orðinn uppáhalds leikhópurinn minn. Ég held ég myndi jafnvel fara barnlaus á sýningarnar þeirra, svo skemmtilegar eru þær. Í ár setja þessi hæfileikabúnt upp Litlu gulu hænuna, en þeir sem þekkja til verka hópsins vita að sjaldan er ein sagan stök, og í ár fléttast saman sagan um fyrrnefnda gula hænu og sagan af Jóa og baunagrasinu. Sú síðarnefnda er í miklu uppáhaldi hjá fimm ára syni mínum sem er bæði mikill klifurköttur og algjör krummi sem safnar öllu sem glansar og glóir. Hugmyndin um að geta klifrað upp baunagras og fundið þar gullpeninga og hænu sem verpir gulleggjum er því gífurlega spennandi fyrir minn litla mann.

Við héldum í Elliðárdalinn og komum okkur fyrir á teppi, með nesti og þann 5 mánaða sofandi í barnavagninum. Ég vil ekki segja mikið meira um innihald sýningarinnar en ég hef nú þegar gert, til að skemma ekki fyrir, enda verkið fullt af óvæntum tengingum og löðrandi í húmor. Börnin hlógu sig að sjálfsögðu máttlaus en foreldrarnir líka, stundum af öðrum, ögn tvíræðari bröndurum. Í því liggur styrkur handritshöfundar, Önnu Bergljótar, sem hefur sérstakt vald á að ná jafnt til barna og fullorðinna auk þess sem hún kryddar söguna með jákvæðum og uppbyggjandi boðskap. Heim halda áhorfendur með sterkari magavöðva eftir hláturinn og hlýtt í hjarta. Sýningin hefur þetta „fílgúdd“ sem allir sækjast eftir en enginn hefur fyrir því að íslenska („vellíðunartilfinning“ nær því ekki alveg).

Nóg um það! Eins og aðrar sýningar Leikhópsins Lottu er tónlistin í forgrunni og sýningin troðfull af slögurum. Í heildina ekki jafn eftirminnilegir og í fyrra, en ég þoli sjálf ekki slíkan samanburð og ætti því að láta hann alveg eiga sig. Eitt lag stóð upp úr og hefur ekki látið mig í friði frá því að ég sat í Elliðárdalnum, en það er söngur risans. Skapari grímu risans, Aldís Davíðsdóttir, á heiðurinn af kómísku og mátulega ógnvekjandi útliti þessa skemmtilega karakters. Það skiptir nefninlega máli að hræða áhorfendur ekki of mikið á sýningu sem ætluð er börnum. Búningar eru að vanda í höndum hinnar dásamlegu Kristínu R. Berman og býr hún einnig til grímur dýranna. Hver persóna er vel auðkennd og dregin fram með leikgerfum og búningum, litum og frábærum leik allra sem um ræðir. Mér leiddist dálítið talandi nornarinnar, en síðan hvenær er vonda nornin í uppáhaldi hjá nokkrum? Leikmyndin er snilldarvel útfærð af Andreu Ösp Karlsdóttur og Sigsteini Sigurbergssyni, en ekki er um auðvelt verk að ræða þegar baunagras þarf að vaxa til himna.

Litla gula hænan er enn ein rósin í hnappagat Leikhópsins Lottu og hef ég ekki tölu á skiptunum sem ég hef sagt barnafólki í kringum mig að DRÍFA SIG að sjá sýninguna. Fimm ára snáðinn eignaðist að sjálfsögðu disk að sýningu lokinni og hefur hlustað á hann aftur og aftur, en vill alltaf byrja á risalaginu. Eins og ég! Og já – gjöriði svo vel, allar stjörnurnar sem ég á: *****

news and informations automotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travelautomotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travel

Leave a comment

Your email address will not be published.