Innblástur, stuldur eða stæling…

Grein, hönnunarstuldurUpprunalega birt í 5. tbl. MAN magasín í júlí sl.

Texti og teikningar: Bergrún Íris

 

Hugleiðing um hugverkastuld

Á meðan að íslensk hönnun er í sókn virðist sem íslenskir hönnuðir þurfi að vera í stanslausri vörn. Landið er lítið og þrátt fyrir að flestir séu frændi eða frænka næsta manns hikar fólk ekki við að ræna annarra hönnun og list.

Dæmi um hönnunarstuld eru mýmörg og hafa flestir tekið eftir umræðu í gegnum árin um Emami-kjólinn, skartið frá Hring eftir hring, Krummaherðatré Ingibjargar Hönnu og Notknot-púðanna frá Umemi. Nú síðast komst Fuzzy-stóll Sigurðar Más Helgasonar í fréttirnar þegar eftirlíking skaut upp kollinum í Danmörku. Teikningar og myndskreytingar eru kapítuli út af fyrir sig en svo virðist sem mörgum finnist fátt eðlilegra en að draga í gegn listaverk annarra og selja sem sín eigin. Eftir að hafa orðið fyrir barðinu á því sjálf og séð kollega mína í myndskreytingaheiminum rænda um hábjartan dag get ég ekki lengur setið á mér. Teiknarinn leggur blýant að blaði og skapar listaverk. Að baki listaverkinu liggja ótal klukkutímar í skissuvinnu. Þar áður fjöldi ára í námi. Sífelld leit að innblæstri, fágun á færni og andvökunætur í leit að réttri línu. Þegar verkið er tilbúið skrifar listamaðurinn undir til þess að þú, sem kaupandi, vitir að þú hefur höfundarverk hans undir höndum. Með tilkomu Internetsins eru flestir listamenn með vefsíðu og margir nota samskiptamiðla til að koma sér á framfæri. Um allan heim verða aðrir listamenn fyrir innblæstri af verkum hans en það er stórmunur á innblæstri og stuldi og það virðist sem almenningur átti sig ekki alltaf á því í hverju munurinn liggur.

 

Orð annars manns

Hugsum aðeins um línur sem orð. Línur listamannsins eru sprottnar úr ímyndunarafli hans eða teiknuð eftir fjölda fyrirmynda, aðlagaðar að ákveðnu viðfangsefni og stíll listamannsins skín í gegn. Teikni listamaður kött þá hugsar hann um þá ketti sem hann hefur séð og þú getur jafnvel þekkt teikninguna af handbragði hans og stíl. Hann fann samt ekki upp ketti og á engan einkarétt á því að teikna ketti. Rithöfundur fann ekki heldur upp orðið köttur eða önnur orð tungumálsins. Ef hann hinsvegar skrifar sögu um kött þá er það sagan hans vegna þess hvernig hann raðar orðunum. Öllum er frjálst að skrifa sögur um ketti. Ef einhver skrifar hinsvegar upp sögu annars höfundar, orð frá orði, og segist hafa samið hana sjálfur, þá er um ritstuld að ræða. Að sama skapi mega allir teikna mynd af ketti, en ef þú dregur í gegn myndina mína, fylgir henni línu frá línu, og þykist eiga hana sjálfur og selur hana jafnvel í nokkrum eintökum, þá erum við ekki lengur að tala um hvaða kött sem er. Þetta er myndin mín og þú mátt ekki teikna hana aftur og merkja með þínu nafni, ekki nema þú takir það fram að um kóperingu sé að ræða. Breytist nokkuð samhengið í þessu dæmi ef ég skipti kettinum út fyrir uglu?

 

Stuðlar og rím en samt mitt eigið ljóð

Ef við líkjum teikningum við bækur eða ljóð virðist sem línurnar skýrist og fólk átti sig örlítið. Margir hafa skrifað glæpasögur, jafnvel eftir mjög stífu formi, en þegar þú skrifar upp bók eftir Yrsu, orð fyrir orð, og lætur eigin nafn framan á kápuna, þá er það ekkert annað en stuldur. Jafnvel þó þú takir bara einn kafla úr bókinni og birtir sem þinn eigin, jafnvel bara eina málsgrein. Yrsa á orðin því hún raðaði þeim svona saman. Teiknarinn sem teiknaði bústna köttinn með loðna skottið á hann afþví að hann raðaði línunum þannig saman. Sama gildir um ljóð, þú getur notað sama form og einhver annar, notast við stuðla og hástafi, endarím, víxlrím og runurím og ort eftir alls kyns reglum og hefðum. Þú stelur samt ekki annara manna orðum. Nokkuð einfalt, ekki satt?

 

Hef ég heyrt þetta áður?

Krummi Ingibjargar Hönnu hefur margoft verið sagaður út í bílskúrum landsins, jafnvel í smíðakennslu í grunnskólum. Hörðustu fylgjendur hönnunarstulds (ómeðvitaðir að sjálfsögðu) kyrja þá gjarnan „hún hefði bara átt að hanna eitthvað flóknara, það getur hver sem er gert þetta“. Hugsum nú um teikningar í sama samhengi og tónlist. Margir flytja ábreiður (e. cover) af tónlist annarra tónlistarmanna. Það má, svo lengi sem þú tekur það fram að lagið sé ekki þitt eigið heldur t.d. Bítlanna. Þú þykist ekki hafa samið Yesterday, bara af því að lagið er svo einfalt að þú getur auðveldlega pikkað það upp og sungið. Jafnvel þó þú syngir Yesterday betur en Paul McCartney er lagið samt Bítlalag. Þegar ábreiðan ratar á plötu þiggja eftirlifandi Bítlar stefgjöld af flutningnum. Væri kannski ráð að Ingibjörg Hanna fengi stefgjöld af heimasöguðum krummum? Þarna lendum við á gráu og flóknu svæði. Má fólk stela hönnun svo lengi sem það er bara til einkanota? Það sem talar helst gegn því er að þegar heimasagaðir krummar hanga upp um alla veggi verðfella þeir upprunalegu hönnunina. Of margir heimasagaðir krummar valda því að færri kaupa krumma Ingibjargar og einhverjir telja hana jafnvel ábyrgð á hálfskökkum og sjúskuðum krumma sem þeir sáu einhvers staðar í fertugsafmæli hjá Stínu frænku. Það er þó ekki ólöglegt að stæla hönnun annars fyrir eigin heimili, ósiðlegt kannski, en löglegt. Þegar hönnun er rænt rata færri aurar í vasa hönnuðarins, þess sem upphaflega fékk hugmyndina, fyllti skissubók eftir skissubók og gekk í gegnum langt og strangt þróunarferli til að varan yrði jafnt arðbær og á viðráðanlegu verði fyrir almenning.

 

Meðvituð kaup

Allir fá hugmyndir. Góðar hugmyndir eru hinsvegar sjaldgæfari og góðar, arðbærar hugmyndir eru eins og norðurljósin. Þú getur ekki stjórnað þeim en þegar þau mæta er eins gott að fylgjast með. Í litlu samfélagi eins og Íslandi, þar sem markaðurinn er í mýflugumynd og dýrt að lifa er ekki auðvelt að vinna í hinum skapandi geira. Starf hönnuðarins er lífsviðurværi hans en ekki áhugamál og þegar hugmynd bankar upp á þarf listamaðurinn að verja hana með kjafti og klóm til þess að eiga fyrir leigunni í næsta mánuði. Með því að versla við listamanninn/hönnuðinn eflir þú hann í sköpun sinni. Þú gerir honum kleift að vinna sér inn laun. Með laununum borgar hann reikningana sína, færir björg í bú og verslar föt á börnin sín. Með sölu á einu verki verður til fjárhagslegt rými til að skapa annað. Hjól atvinnulífsins snúast og heimilið þitt er ögn fallegra með verki hans á veggnum.

2(1)

Það eru ótal leiðir til þess að teikna kött… finndu þína eigin.

 

news and informations automotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travelautomotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travel

Leave a comment

Your email address will not be published.