Einfaldara líf

 

teikningfinal

Barnabókahöfundurinn Jackie French Koller hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði: „Það eru tvær leiðir til þess að verða ríkur: Önnur er að eignast mikið og hin er að þurfa lítið.“

Margt hefur breyst á Íslandi síðan langömmur okkar og langafar voru upp á sitt besta. Íslendingar hafa fært sig úr torfkofum, þar sem fjöldi manns deildi baðstofu, yfir í íbúðir og hús með svefnherbergi fyrir eina eða tvær manneskjur. Íbúðir sem áður hýstu hjón, 4-8 börn og ömmu og afa þykir í dag mátuleg fyrir par með tvö börn og kött, ef það er pláss. Til að fylla upp í allt rýmið þarf að kaupa hluti. Dauða hluti sem safna ryki, þjóna nær engum tilgangi og gera á endanum lítið annað en að trufla augað, hugann og öll okkar samskipti. Með því að létta á heimilinu, tæma skúffur og skápa, henda og gefa, má einfalda heimilið og um leið líf heimilisfólksins. En hvernig má einfalda og hvar er best að byrja?

Líttu í kringum þig

Ímyndaðu þér að þú standir í ónefndri raftækjaverslun. Allt í kringum þig eru útvörp, stillt í botn á klassíska tónlist, dauðarokk, skerandi sykurpopp og leiðindatuð um hagvöxt og vaxtahækkanir. Úr öllum áttum dynja auglýsingastef á þér eins og hávaðafoss. Eyrun eru fljót að láta okkur vita ef hávaðinn og áreitið er of mikið. Við förum úr aðstæðunum eða lækkum í hávaðanum ef það er hægt. Augun upplifa sömuleiðis óþægindi þegar sjónrænt áreiti verður of mikið en við tökum síður eftir því og erum alls ekki nógu dugleg að minnka áreitið. Líttu í kringum þig á heimilinu. Hvað er uppi við sem mætti fara í kassa, inn í skáp eða jafnvel beina leið í nytjagáminn í Sorpu? Minna áreiti leiðir af sér kyrran huga, meiri einbeitingu, betri slökun og jafnara geð.

Settu fataskápinn í megrun

Við erum að verða of sein í matarboð eða leikhús en við eigum bara ekkert til að fara í! Fataskápurinn er þó svo fullur að það er meiriháttar mál að fara í gegnum hann til að leita að einhverju klæðilegu. Þegar við loks komumst út skiljum við eftir fatahrúgu á rúminu sem tekur á móti okkur þegar við komum þreytt heim í lok kvölds. Náðu þér í stóran svartan plastpoka og fylltu af flíkum sem þú hefur ekki notað síðasta hálfa árið og gætir ekki hugsað þér að fara í næstu daga eða vikur. Ef þú átt erfitt með að losa þig við fötin skaltu geyma þau í pokanum í tvær vikur. Í fjórtán daga mun reyna á það hvort þú saknar einhvers úr pokanum. Á sama tíma upplifir þú léttari morgna þar sem skipulagður skápur heilsar og fötin eru mun snyrtilegri og aðgengilegri en ella. Að reynslutímanum loknum ferðu með pokann í fatasöfnun Rauða krossins án þess að kíkja ofan í hann. Færri föt í skápnum = fleiri flíkur sem þig langar að klæðast.

Skiptu leikföngunum reglulega út

Leikföng eru mjög dýr og ef dótið er ekki dottið í sundur eftir nokkra daga hefur barnið örugglega misst allan áhuga á því að leika með það. Góð leið til að minnka dót og drasl í barnaherbergi er að fylla fallega dótakassa en hafa aðeins nokkra þeirra í umferð hverju sinni. (Fjöldi kassa fer eftir aldri barns og áhugasviði. Ungabarn þarf aðeins einn dótakassa en 5 ára barn vill kannski einn kassa undir eldhúsdót, annan undir Lego og svo framvegis.) Geymdu hina kassana í geymslu og skiptu þeim reglulega út. Barninu líður eins og það hafi fengið fullt af nýju dóti! Hreinna og skipulegra barnaherbergi þýðir líka minna áreiti og meiri einbeiting í leik.

ahlens

Fleiri hreindýr en manneskjur?

Oft fyllum við hillur heimilisins af hlutum sem hafa enga sérstaka merkingu eða stað í hjarta okkar. Ef fjöldi hreindýra í stofunni er meiri en fjöldi heimilisfólks ertu greinilega safnari, en alls ekki safna einhverju nema það sé áhugamál sem gleður þig. Ef það snýst um að skapa ímynd fyrir aðra ertu á villigötum. Heimilið þitt er heimilið ÞITT og ekki nágrannans eða Siggu úr saumó.

Iðnaðareldhús með 100 manns í mat

Fjórar ausur, fimm sleikjur, þrír ostaskerar… skúffuinnihaldið er eins og í besta iðnaðareldhúsi. Skápar og skúffur flæða yfir af áhöldum sem við notum örsjaldan og það tekur allt of langan tíma að finna dósaupptakarann. Eldhúsið þitt þjónar líklega aðeins nokkrum manneskjum og algjör óþarfi að eiga ausu fyrir hvern matargest. Ein ausa er nóg og ef hún er skítug tekur aðeins nokkrar mínútur að vaska hana upp. Hvað áttu annars margar salatskálar eða bakka? Hugsaðu þér hvað lífið er einfalt þegar það er eitt af öllu og allt við höndina.

Lampi sem engum lýsir

Finnst þér óþolandi að færa alltaf sama lampann eða hægindastólinn þegar þú ryksugar og skúrar? Hvenær settistu síðast í stólinn eða kveiktir á lampanum? Húsgögn eru ekki heilög þegar kemur að því að einfalda á heimilinu og það mun koma þér á óvart hversu lítið þú munt sakna mublanna. Það er líka alltaf gott fyrir sálina að gefa og vita af húsgögnum á nýjum stað þar sem þörfin er meiri.

 

Greinin birtist í 10. tölublaði MAN magasín. Texti og teikning: Bergrún Íris

news and informations automotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travelautomotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travel

Leave a comment

Your email address will not be published.