Á annarri öld…

11406634_991709140861699_4622814927700220163_oÞetta árið var ég þess mikla heiðurs aðnjótandi að fá að semja ljóð Fjallkonunnar í Hafnarfirði. Fjallkonan var hinsvegar ekki ein, heldur hundrað glæsilegar hafnfirskar konur í þjóðbúningum, í tilefni af hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Það tilefni varð kveikjan að orðunum sem ég setti á blað fyrir um mánuði, en síðan þá hefur það runnið upp fyrir mér, enn skýrar, að við eigum enn langt í land. Launamunur milli kynja, hryllilegar sögur af kynferðisofbeldi, þörf (en furðu umdeild) brjóstabylting og nú síðast, þegar lög voru sett á eina stærstu kvennastétt landsins og verkfallsréttur þeirra hunsaður.

Hundrað kvenna kór fór með orðin og ég var með gæsahúð allan tímann.

11537243_10206865255100525_4279089250611344_n

Á annarri öld

Þú gekkst um þessar götur á annarri öld
vannst baki brotnu langt fram á kvöld
saumaðir, skúraðir, stagaðir í,
fæddir og klæddir og fékkst aldrei frí.
Yfir þvottinum bograðir buguð og sveitt,
hendurnar lúnar og augun svo þreytt.
Fjórtán fæddust börnin og fimm þeirra jörðuð,
leið þín var sorg og sárindum vörðuð.
En börnin voru klædd, snyrt og strokin
og alltaf stóðstu keik og aldrei hokin
hárið greitt upp og pilsið sett í pressu,
ekki mátti mæt’ of seint í vikulega messu,
og þar sastu þögul og hlustaðir á
karl tala um karla, heilaga þrjá.
Og engu betri voru bækurnar heima
því aðeins þær afrek karlanna geyma
og sjaldan var kvennanna skrifuð saga
þær sátu hvork’ á þingi né lærðu til laga,
og höfðu ekki atkvæði til þess að ráða
hvaða þingmenn þær vildu hvetja til dáða.
Og engin mátti kona setja sitt mark
á þingið, þó ekki skorti þær kjark.
Þú sást ekki fyrir hvað verða vildi,
það þurft’ ekki til þess sverð og skildi
og ekki krafðist það stórra fórna
að stíga fram og landinu stjórna,
því enn voru börnin strokin og klædd
þó mamma fær’ á fundi og þjóðmálin rædd,
og enginn þessum konum réttinn gaf
þær tók’ann með valdi, valdinu af.

Þú gekkst um þessar götur á annarri öld
nú viljum við jafnrétti, virðingu og völd.

 

10382177_10206865260940671_1569358360172818748_n

Upprunalega var síðasta lína ljóðsins svona: „nú höfum við jafnrétti, virðingu og völd“ en henni breytti ég í morgun áður en ljóðið var flutt. Við erum nefninlega komin ansi nálægt jafnréttinu, en herslumuninn vantar. Þær konur sem á undan okkur fóru börðust fyrir megninu, við hljótum að geta tekið restina fyrir komandi kynslóðir.

Gleðilega þjóðhátíð!

11138137_10206865351022923_88148837139985357_n

Lítið við á facebook-síðu Annríki til að kynnast betur þeim merka félagsskap.

news and informations automotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travelautomotive,business,crime,health,life,politics,science,technology,travel
  1. Katla Hreiðarsdóttir

    17. June 2015 at 20:12

    Frábærlega vel skrifað hjá þér Bergrún! Endirinn flottur og alveg rétt, það vantar herslumuninn og það er þarft að fá svona áminningu á fyrri sigrum þó ennsé aðeins í land.

  2. Ásta Björg

    17. June 2015 at 21:32

    Vel ort! Ég trúi því að þetta hafi verið gæsahúðarmóment. Er miður mín að hafa misst af þessu. Til hamingju og gleðilega hátíð.

Leave a comment

Your email address will not be published.